Hvernig get ég tekist vel á við breytingar?

Hvernig get ég tekist vel á við breytingar?

Við komumst ekki í gegnum lífið án þess að þurfa takast á við breytingar því þær eru eðlilegur hluti af þroskaferli manneskjunnar.

Oftast er það óvissan sem fylgir breytingum sem veldur okkur mestu óþægindunum, einnig er þol okkar fyrir óvissu mismikið.

Það sem getur gert breytingar erfiðari viðureignar eru væntingar okkar til breytinganna sem og okkur sjálfra. Við erum oft með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvernig þær eigi að fara fram og niðurstöðuna.

Sumir oftúlka hættuna á mistökum og afleiðingum þess. Einnig vanmetum við oft eigin styrk og getu til að leysa þann vanda eða óþægindi sem gætu komið upp.

Enn aðrir setja þær kröfur á sig að gera ráð fyrir að þeir eigi að kunna hlutina jafnvel áður en þeir hafa fengið viðeigandi kennslu eða reynslu (t.d að við eigum að getað sýnt færni eða frumkvæði í nýju starfi eftir fyrstu vinnuviku eða mánuð, vera orðin góð í golfi eftir helgarnámskeið).

Það er eðlilegt að sú óvissa sem fylgir breytingum ýti undir ýmis einkenni streitu og kvíða s.s aukna vöðvaspennu, pirring, áhyggjur eða svefnvanda. Við óttumst að mistakast, að vera byrjandinn sem kann ekki eða gerir eitthvað rangt, verða að athlægi og álit annarra.

Streitan sem fylgir breytingum eins og að eldast, hefja nýjan kafla í lífinu, stíga út fyrir öryggis boxið, kynnast nýju fólki, íþrótt eða áhugamáli er einnig til staðar þegar um jákvæðar breytingar er að ræða, eins og að byrja í spennandi námi, nýju starfi eða að ganga í hjónaband.

Það jákvæða er að það er ósköp eðlilegt að finnast breytingar erfiðar, því þær eru það!

En hvað getum við gert til að auðvelda okkur breytingaferlið, svo það verði þolanlegra og kannski mögulega ánægjulegt líka.

Sjáum húmorinn við aðstæðurnar
Til dæmis með því að horfa á málið út frá öðrum hliðum. Það léttir lund og bætir samskipti okkar við aðra.

Ræðum við einhvern um vandann sem við erum að fást við í stað þess að festast í umræðum um tilfinningar okkar tengt málinu.

Þótt mikilvægt sé að vinna úr erfiðum tilfinningum þá er það annar þáttur af vandanum. Gott er að skipta þessu niður í tilfinningarlegan vanda (t.d ég er kvíðin fyrir að…) og svo praktískan vanda tengd breytingunum (Það þarf að reikna þessa formúlu, en ég treysti mér ekki/kann ekki…what to do?).

Forgangsröðum og skiptum breytingarferlinu niður í smærri og yfirstíganlegri skref.

Fókusum á gildin okkar í stað óttans.
Ef breytingarnar eru mikilvægar fyrir þarfir okkar og lífsgildi til að lifa í sátt við okkur sjálf þá minnkar vægi óttans og við eigum auðveldara með að yfirstíga hann.

Finnum sátt við fortíðina, en berjumst og tökum fagnandi á móti framtíðinni.
Tökum börn okkur til fyrirmyndar því þegar þau takast á við breytingar þá gera þau það oftast með augum einlægrar forvitni og tilhlökkunar.

Reynum að dvelja ekki lengi í fortíðinni eða að velta okkur upp úr þvi sem var, því það gagnast okkur ekki í því að halda lífinu áfram. Reynum að sjá fyrir okkur það jákvæða sem gæti orðið eftir breytingar, það veitir okkur von og drifkraft.

Sýnum okkur samkennd á ferðalagi okkar í gegnum breytingar lífsins. Viðurkennum hvernig okkur líður og gefum okkur leyfi til að finna þessar tilfinningar. Við erum bara mannleg, öllum myndi líða eins ef þau hefðu okkar lífsreynslu og sögu að baki og væru að takast á við sömu breytingar. Minnum okkur á að þetta tímabil/tilfinningar munu líða hjá eins og annað.

Spyrjum okkur svo, hvers þarfnast ég núna? Hvað get ég gert til að hjálpa mér í þeirri vegferð að líða betur ef ég vil fylgja þessum breytingum áfram?

Í raun væri mun hjálplegra fyrir okkur að hugsa um breytingar sem eðlilegan hluta af lífi okkar út alla ævi. Við virðumst gera okkur grein fyrir að eðlilegt sé að börn og unglingar fari í gegnum heilmiklar þroska breytingar milli ára og tímabila.

Hví ættum við þá ekki að líta á breytingar á okkur fullorðnum t.d hvað líkama, heilsu, og getu varðar séu eðlilegar?

Þótt breytingarnar geti tekið á þá er það í raun mikil fegurð, lán og forréttindi að fá að þroskast og eldast.

Anna Sigurðardóttir, sálfræðingur

Scroll to Top