Sigríður Anna Einarsdóttir

Félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur

Sigríður býður upp á þjónustu fyrir fullorðna og ungmenni frá 18 ára aldri. Lögð er áhersla á gagnreyndar aðferðir. Sigríður Anna hefur um 30 ára reynslu af meðferðarvinnu, hópastarfi og námskeiðahaldi.

Hún veitir einstaklingsmeðferð m.a. við meðvirkni, lágu sjálfstrausti og lélegri sjálfsmynd. Hún vinnur með þeim sem hafa gengið í gegnum ýmiskonar erfiðleika í lífinu. Jafnframt styður hún þá sem vilja vinna í því að þykja vænna um sjálfa sig, draga úr niðurbrjótandi hugsunum og tilfinningalegri vanlíðan, tengjast sér betur tilfinningalega. Einnig styður hún þá sem vilja losna við slæman ávana. Þá veitir hún þeim stuðning sem eru að takast á við breytingar, skoða stöðu og stefnu og gildin sín í lífinu, t.d. hvað vil ég, hvert vil ég stefna. Hún veitir líka markþjálfun, hjálpar fólki við að takast á við samskiptaerfiðleika, ofbeldi í samböndum, finna jafnvægi í daglegu lífi og draga úr streitu. Einnig að þjálfa djúpslökun og finna hugarró.

Sigríður Anna sinnir einnig para-, hjóna- og fjölskyldumeðferð.
Hún aðstoðar fjölskyldur við að takast á við erfiðar aðstæður, vinnur með samskipti foreldra og barna, takast á við tilfinningaleg mál, styrkja tengsl og hlúa að góðum samskiptum og fjölskylduanda, sætta ágreining. Aðstoðar við að styrkja foreldrasamvinnu eftir skilnað og styrkja tengsl foreldra og barns eftir skilnað, einning að takast á við áskoranir stjúpfölskyldunnar.
Boðið er upp á viðtöl þar sem verið er að undirbúa sig fyrir sambúð og einnig að ganga síðasta æviskeiðið saman.
Einnig býður Sigríður Anna upp á para- og hjónameðferð til þess að efla árangursrík samskipti, byggja upp traust, styrkja nánd og tilfinningatengsl, auka á virðingu og ást, og taka á ágreiningi og missætti.

Sérfræði og áhugasvið
Auk menntunar í félagsráðgjöf og sérmenntunar í fjölskyldumeðferð hefur Sigríður Anna sérhæft sig í klínískri dáleiðslu í þrjú ár, NLP practitioner (Neuro linguistic programming), NLP markþjálfun, hláturjóga og áfalla-og uppeldisfræði Piu Melody, stig ll.

Auk þess hefur Sigríður Anna sótt ýmis málþing og styttri námskeið til þess að efla og viðhalda þekkingu sinni. Hér eru nefnd aðeins nokkur; Hugræn atferlismeðferð (HAM); gottman hjónameðferð; lausnamiðuð fjölskyldumeðferð: áhugahvetjandi samtal; gjörhygli hugleiðsla; streita og áföll og faghandleiðsla. Einnig hefur hún sótt fjölmörg fræðsluerindi um beitingu dáleiðslu í starfi heilbrigðisstétta, á vegum Dáleiðslufélags Íslands

Aðferðir sem stuðst er við í viðtölum fara eftir því hvað verið er að vinna með hverju sinni. Meðferðarform geta einnig fléttast saman þegar við á.

Hún hefur haldið ýmis fræðsluerindi m.a. um viðvörunarbjöllur í hjónabandinu; að hlúa að stjúpfjölskyldunni; streitu og fjölskyldulíf; samskipti foreldra og barna; hugsanaskekkjur; streitu og slökun; um gróður og líðan; áhrif tónlistar á líðan; áhrif hláturs á heilsuna; sjálfstyrkingu; að efla sjálfsmyndina; meðvirkni og um niðurstöður rannsókna í dáleiðslu.

Menntun og starfsreynsla
Sigríður Anna er með leyfisbréf frá Heilbrigðis- og Tryggingamálaráðuneytinu til að starfa sem félagsráðgjafi. Hún lauk félagsráðgjöf til starfsréttinda frá Háskóla Íslands 1988 og þar áður, sem hluta af félagsráðgjafanámi, BA-prófi í uppeldisfræði 1985 (lokaverkefnið fjallaði um skilnaðarbörn).

Sigríður Anna er með tveggja ára sérmenntun í fjölskylduvinnu og fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun HÍ.
Hún starfaði á geðdeild Landspítalans frá 1988-1994. Hún rak eigin félagsráðgjafastofu frá 1993 í á annan áratug. Hún starfaði við sérverkefni hjá MS félagi Íslands frá 2003 til 2019. Síðastliðin rúm 20 ár hefur Sigríður Anna starfað hjá Janus endurhæfingu og gerir enn jafnhliða starfi sínu hjá Samkennd Heilsusetri.

Auk viðtala hefur Sigríður Anna verið með fjölda námskeiða og hópvinnu til eflingar félagslegri og geðrænni heilsu, auk hjónanámskeiða og hjónahelga.

Annað
Sigríður Anna hefur notið handleislu auk þess að hafa veitt handleiðslu nema, nýliðahandleiðslu og hóphandleiðslu.
Sigríður Anna hefur langa reynslu af því að vinna í þverfaglegu teymi.
Hún tók þátt í að vinna að uppbyggingu starfs í Vinnuhópi gegn sifjaspellum 1988-1991 í framhaldi af verkefni um sifjaspell í HÍ.
Einnig tók hún þátt í CIP – hluti af því var með með áherslu á geðræna heilsu- þ.e. Program for international human service professionals – Indiana University School of Social Work and the Division of Continuing Education in cooperation with the Council of International programs

Sigríður Anna er einn af stofnfélögum Fjölskyldufræðingafélags Íslands- Fagfólks í fjölskyldumeðferð. Útgefið efni: Slökun fyrir alla, hljóðsnælda 1995, endurútgefin á geisladisk 2015. Sigríður Anna er í stjórn Dáleiðslufélags íslands og félagi í Félagsráðgjafafélagi Íslands.

Scroll to Top