Hlúðu að þér í fríinu

Hlúðu að þér í fríinu

Hver kannast ekki við það að koma úrvinda af þreytu heim eftir helgar- eða sumarfrí með fjölskyldunni?

Þegar fjölskyldan fer í ferðalag saman er mikilvægt að passa uppá að staldra við og taka stöðuna á sér reglulega, bæði líkamlega og andlega.

Þannig getum við heyrt/skynjað ef líkaminn þarfnast hvíldar og hleðslu og fylgt því eftir með ýmsum hætti.

Þegar við tökum stöðuna á okkur þá er hægt að gera það á eftirfarandi hátt, reglulega yfir daginn:
1. Veittu líðan þinni athygli. T.d spyrðu sjálfan þig “hvernig líður mér núna í líkamanum?”, “hvernig líður mér núna andlega og tilfinningalega?”.
2. Viðurkenndu það sem þú upplifir (s.s segðu við þig “ég finn að verkirnir eru að aukast”, eða “ég er annars hugar og streitt”.
3. Spyrðu þig að lokum “hvers þarfnast ég nú?” Og fylgdu því eftir með því að hlúa að þörfum þínum miðað við stöðuna og aðstæðurnar sem þú ert í.

Síðan er mikilvægt að láta börnin og makann vita að þú þurfir pásu ef svo er, farir svo að sinna því sem líkaminn eða hugurinn þarfnast.

Stundum er hægt að stunda endurnærandi athafnir í samfloti við skemmtiferðir fjölskyldunnar. Til dæmis ef þið eruð í sundi með börnin þá getið þið skiptst á að sinna þeim svo annað ykkar geti tekið sér stund til að hlúa að eigin þörfum.

Sem dæmi gæti verið mikilvægt fyrir makann að komast í gufu og kalda pottinn. En fyrir þér að fá stund til að gera léttar æfingar í vatninu, eða fara í kalda pottinn og slaka aðeins á.
Þetta þarf ekki að vera langur tími t.d bara 5-10 mín.

Það sem skiptir mestu máli er að finna að maður hefur algjört næði og samþykki maka eða barna til að taka sér þessa stund. Þannig getur maður einbeitt sér að hvíldinni en ekki verið stanslaust með hugann á vakt.

Ef maður er staddur einn í ferðalagi eða bústað með börnunum þá er hægt að gera samning við þau. Þannig getum við hlúið að okkur sjálfum á milli þess sem við hlúum að þeirra þörfum.

Til dæmis með því að óska eftir samstarfi (ef aldur og þroski þeirra leyfir). Biðja börnin um að hjálpast að við að sinna hvert öðru á meðan þú hvílist t.d í 15-30 mín. Síðan fylgir þú því eftir og hleður batteríið þitt eins og þér gagnast best.

Þegar hvíldinni og stund til sjálfsumhyggju er lokið þá er hægt að fara aftur af stað í ævintýraleit og skapa góðar minningar saman.

Anna Sigurðardóttir, sálfræðingur

Scroll to Top