Hvernig get ég tamið mér heilsusamlegri venjur?
Talið er að meirihluti alls þess sem við framkvæmum daglega séu venjur sem við endurtökum með sama hætti dag eftir dag.
Til dæmis fáum við okkur morgunverð, förum í sturtu, keyrum í vinnuna og förum að sofa með sama hætti daglega.
Yfir ævina höfum við þannig tamið okkur ákveðnar lífsvenjur.
Kosturinn við venjur er að þær eru að mestu framkvæmdar ómeðvitað og sjálfvirkt og krefjast því lítillar einbeitingar, athygli eða orku. Þessi sjálfvirkni veldur því að við getum gert marga flókna hluti í einu. Sem dæmi þá getum við keyrt bílinn í vinnuna ásamt því að að skipuleggja daginn í huganum.
En sjálfvirknin sem fylgir venjum er einnig helsti ókostur þeirra. Það á sérstaklega við þegar við viljum hætta eða breyta venjum okkar. Margir þekkja það eflaust hversu erfitt það er að breyta óheilsusamlegum venjum s.s. neyslu óheilsusamlegs mataræðis eða kyrrsetu, þrátt fyrir að við höfum vitneskju um þann skaða sem þær valda okkur þegar til lengri tíma er litið.
Flestir vanmeta styrk venja og átta sig ekki á hversu stífar og ósveigjanlegar þær eru. Einnig gera fáir sér grein fyrir því hversu margir ólíkir þættir í umhverfi okkar og upplifun okkar á þeim kveikja á eða viðhalda venjum.
Til dæmis hafa sennilega flestir upplifað að hafa ekki áttað sig á því að þeir væru að borða matinn sem var á disknum fyrir framan þá fyrr en maturinn var snögglega búinn, þar sem athygli þeirra var víðs fjarri.
En hvernig er þá hægt að breyta venjum?
Læra að þekkja sínar venjur
Þegar breyta á óheilsusamlegum venjum þarf að byrja að skrá niður daglegar venjur sínar í ákveðinn tíma, til að skoða dagleg hegðunarmynstur gaumgæfilega. Þannig aukast líkurnar á því að hægt sé að átta sig á þeim atriðum sem kveikja á eða viðhalda venjunum svo hægt sé að breyta þeim.
Þjálfun einbeitingar
Gott er að æfa sig í að vera á stað og stund með fullri einbeitingu og athygli þegar framkvæma á ákveðna hegðun. Einnig er hægt að velja sér tíma dags þar sem lögð er áhersla á að vera með athyglina á því sem líkaminn er að gera eða á önduninni. Til dæmis væri hægt að gefa sér 10 mínútur þar sem hugurinn er þjálfaður í að halda athygli á því sem líkaminn er að gera hverju sinni. Þegar við gerum okkur grein fyrir því að hugurinn hefur reikað í burtu, þá hrósum við okkur fyrir að veita því athygli og færum hugann mildilega aftur tilbaka að því sem líkaminn er að gera. Þetta er svo endurtekið eins oft og þörf er á þar til æfingartíminn er liðinn. Þegar þetta er þjálfað markvisst og endurtekið í tengslum við þá hegðun sem óskað er eftir að sé breytt þá fer vanabundin, óhjálpleg og sjálfvirk hegðun síður framhjá manni.
Sýndu þér skilning
Þegar barist er við stífar og ósveigjanlegar venjur, má búast við hrösun. Þá er mikilvægt að geta leitað innra með sér að hvatningu og styrk. Jafnframt er gott að minna sig á að allar manneskjur hafa einhvern tíman upplifað erfiðleika við að breyta venjum og endurtekna hrösun. Því er mikilvægt að sýna sér skilning á því að við séum bara mannleg. Þannig getum við svo öðlast aftur drifkraft og haldið áfram að æfa okkur í að sinna heilsusamlegu líferni.
Anna Sigurðardóttir, sálfræðingur