Fimm leiðir að hamingjuríkara lífi

Fimm leiðir að hamingjuríkara lífi

Leiðin að hamingjuríkara lífi, aukinni líkamlegri- og andlegri heilsu þarf ekki alltaf að vera flókin. Hér eru 5 einfaldar leiðir sem auka vellíðan þegar þær eru stundaðar reglulega

Tengsl
Gefum okkur daglega tíma til að tengjast fólki í kringum okkur. Hvort sem það er með fjölskyldu, vinum, samstarfsfólki eða nágrönnum. Heima, í vinnunni, í skólanum eða út í búð. Með því að sinna tenglsum við fólk og hlúa að samböndum okkar öðlumst við tilgang og upplifum vellíðan og öryggi.

Verum virk
Leitum leiða til að vera virk daglega. Förum í göngutúr, hjólum, skíðum eða dönsum. Uppgötvum líkamlega hreyfingu sem við njótum og hentar okkar eigin lífsstíl, hreyfigetu og hæfni. Það að vera líkamlega virkur getur bætt andlega heilsu og vellíðan.

Stöldrum við og njótum
Verum meðvituð um heiminn í kringum okkur. Verum forvitin. Tökum eftir því einfalda og fallega í kringum okkur. Tökum eftir þeim breytingum í náttúrunni og umhverfi okkar sem fylgja hverri árstíð. Njótum augnabliksins hvort sem við göngum í vinnuna, borðum hádegismat eða tölum við vin. Gefum gaum að líðandi stund, hugsunum okkar, tilfinningum og heiminum í kringum okkur.

Höldum áfram að læra
Prófum eitthvað nýtt eða sinnum aftur gömlu áhugamáli. Skráum okkur á námskeið, eldum nýja uppskrift eða tökum nýja ábyrgð. Að setja sér nýja áskorun og læra nýja færni eykur sjálfstraust okkar sem getur bætt andlega heilsu og vellíðan.

Gefum af tíma okkar
Prufum að skrá okkur sem sjálfboðaliða eða veitum aðstoð í samfélagshópum. Það getur verið ótrúlega nærandi að gefa til samfélagsins og skapa tengsl við fólkið í kringum sig. Að gefa af sér, tíma sinn, hlustun eða nærveru til annarra veitir sjálfum okkur vellíðan og sátt.

Anna Sigurðardóttir, sálfræðingur

Scroll to Top