Af hverju bregst ég svona við? – Fyrri hluti

Í streituvaldandi aðstæðum þegar lífi okkar er ógnað höfum við mjög öflugt verndarkerfi. Það er sjálfvirkt kerfi í heila okkar sem virkar jafnvel áður en við getum gripið til meðvitaðra aðgerða. Þetta kerfi hefur verndað okkur í gegnum milljóna ára þróun gegn rándýrum og yfirvofandi hættu. En jafnvel þó að það sé mjög háþróað hefur það sína galla.

Halló Mandla!
Mandlan (e. Amygdala) er vel falin í djúpum mannsheilans og þróaðist löngu fyrir þróun nýbarkar (e. Neocortex) og meðviðtaða hugsun.
Mandlan er hluti af limbíska kerfinu og tilgangur þess er að stjórna tilfinningalegum viðbrögðum eins og ótta og árásargirni.

Þar sem limbíska kerfið og mandlan eru eldri en nýbörkur (með tilliti til þróunar), hefur sá hluti heilans forgang hvað svörun varðar.
Það þýðir að ávallt þegar takast þarf á við hættulegar aðstæður þá virkjast og svarar mandlan fyrst, áður en meðvitaðri hluti heilans (nýbörkur) getur svarað.

Dæmi um þetta er sorgleg saga af Mathildu Crabtree sem lýsir því hvernig við bregðumst við áður en við verðum fyllilega meðvituð um hegðun okkar.

Árið 1994 var Matilda 14 ára stúlka sem vildi gera smá at í foreldrum sínum. Svo þegar Bobby Crabtree og kona hans snéru heim seint að kvöldi héldu þau að Matilda væri í heimsókn hjá vinum sínum.

Hins vegar, þegar þau voru komin inn í hús þá heyrði Bobby einhvern hávaða frá efri hæðinni. Matilda hafði falið sig í fataskápnum og ætlaði að bregða foreldrum sínum. Bobby fór upp stigann, tók byssuna sína og fór inn í svefnherbergi Matildu.
Þegar hún stökk út úr skápnum til að bregða föður sínum þá tók Bobby í gikkinn. Matilda lést 12 tímum síðar.

Þarna tók ótti Bobbys stjórn á viðbrögðum hans áður en hann gat verið meðvitaður um hvað hann var að gera. Við erum raunverulega að tala um millisekúndur hér, örstuttan tíma sem getur raunverulega skipt sköpum.
Bobby Crabtree var ekki sóttur til saka vegna þess að það sem gerðist var slys.

Hins vegar er hægt að ímyndað sér sársaukann sem þessi faðir hefur þurft að búa við alla ævi.

Þótt þessi saga hafi haft einstaklega skelfilega afleiðingar í för með sér þá höfum við öll einhvern tíman upplifað svipað. Þ.e. að bregðast við ógn á annan hátt en við hefðum óskað.
Stundum eigum við mjög erfitt með að skilja af hverju við bregðumst við á þennan hátt. Höldum að það sé eitthvað „að okkur“ að hafa ekki gert þetta eða hitt miðað við aðstæður.

En ástæðan er sú að það gefst ekki tími til að velja viðbrögð þegar við upplifum ógn.
Mandlan tekur stjórn og velur það viðbragð sem taugakerfi okkar telur réttast að nýta miðað við hættuna og aðstæður.

Markmið möndlunnar er að verjast, halda okkur á lífi, alveg sama hvað.

Góðu fréttirnar eru þó þær að það er hægt að þjálfa heilann og taugakerfið á þann hátt að við náum betri stjórn á eigin viðbrögðum þegar við
upplifum ógn.

Í kjölfarið getum við tekið meðvitaðri ákvarðanir um svörun þegar við stöndum frammi fyrir ógnandi aðstæðum og sigrast á ótta okkar.

Í næsta pistli verður farið yfir fjórar leiðir til að takast betur á við ógn.

Anna Sigurðardóttir, sálfræðingur

Heimild
Vlad. C.(2015). US Navy SEALs conquer fear using four simple steps. Sótt mars 2022 af https://qz.com/450517/us-navy-seals-conquer-fear-using-four-simple-steps/#:~:text=The%20%E2%80%9CBig%20Four%E2%80%9D,to%20effectively%20conquer%20their%20fears.

Scroll to Top