Jákvæð sálfræði og endurheimt í ágúst

Námskeið sem hentar öllum þeim sem vilja stuðla að aukinni vellíðan og hamingju með sálfræðilegri endurheimt og inngripum jákvæðrar sálfræði.

Fræðslan fer fram á léttri göngu um náttúrusvæði Reykjavíkur og hefst í Elliðaárdalnum þann 9. ágúst kl. 17:00. Aðrir staðir sem við munum nýta okkur eru m.a. Grasagarður Reykjavíkur og Heiðmörk. Nánari staðsetningar verða birtar inn á lokaðri FB síðu hópsins.

Við hittumst í 6 skipti frá 9 – 25. ágúst á þri og fim kl. 17 – 18:00 / 18:30 (Fer eftir gönguhraða og samræðum).

Innifalið í námskeiðinu er:

  • Fræðsla um sálfræðilega endurheimt
  • Fræðsla um jákvæða sálfræði og hagnýt inngrip sem þú getur nýtt strax í þínu daglega lífi.
  • Lokaður Facebook hópur
  • Heimaverkefni
  • Styrkleikagreining og verkefnahefti
  • Önnur inngrip jákvæðrar sálfræði
    • Dagbókarskrif
    • Þakklætisæfingar
    • Góðverk
    • Núvitund
    • Hreyfing
  • Gestakennari sem kynnir m.a. fyrir okkur mikilvægi réttrar öndunar
  • Mætingaverðlaun.

Þátttakendur geta keypt aukalega:

  • 3 markþjálfunartímar á verði 2. Ef þú getur ekki eða telur þig ekki þurfa að nýta 3. tímann þá máttu gefa hann einhverjum sem langar að prófa. Tíminn kostar 15.000 og greitt er fyrir 2 fyrstu tímana.

Leiðbeinandi námskeiðs er Sylvía Guðmundsdóttir. Hún er ICF viðurkenndur markþjálfi, með Bs í sálfræði, Ms diploma í jákvæðri sálfræði og Ms í mannauðsstjórnun ásamt því að sitja í stjórn félags um jákvæða sálfræði. Sylvía er eigandi Styrkleika og stefnu og er hluti af faglegu teymi Samkenndar Heilsuseturs.

Gestakennari er Auður Svavarsdóttir, Garðyrkjufræðingur og menntuð Yoga kennari. Hún mun m.a. fræða okkur um mikilvægi réttar öndunar og svara áhugasömum af bestu getu um plönturnar í Grasagarðinum þar sem hún starfaði til margra ára.

Verð á námskeiðinu er kr. 25.000 en Kr. 21.500 ef greitt er fyrir 4. ágúst

Nánari upplýsingar og skráning er í sylvia@styrkleikarogstefna.is 

 

Stuttur fróðleikur um efni námskeiðs.

Sálfræðileg endurheimt

Kenningin um sálfræðilega endurheimt kemur úr fræðum Umhverfissálfræði sem beinir sjónum sínum að áhrifum umhverfis á líðan einstaklinga.

Í daglegu tali myndum við líklega tala um sálfræðilega endurheimt sem það að hlaða batteríin. Ein fræðileg skilgreining er „endurnýjun líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar getu, sem minnkað hefur vegna fyrirhafnar fólks við að mæta hinum margvíslegu kröfum hversdagsins.“ 

Eitt af því sem álag getur valdið er athyglisþreyta. Hún lýsir sér m.a. í skorti á einbeitingu, erfiðleikum við að leysa verkefni og vöntun á líkamlegri getu til að komast í gegnum daginn. Hún getur einnig dregið úr getu til að veita ástvinum félagslegan stuðning.

Að finna fyrir athyglisþreytu er fullkomlega eðlilegt ástand sem flest fólk upplifir reglulega. Það er ekki fyrr en tækifærin til endurheimtar verða of fá eða óregluleg yfir lengri tíma að við förum að sjá neikvæðar afleiðingar hennar á heilsu og velferð fólks.

Jákvæð inngrip

Um aldarmótin 2000 jókst áhugi á að rannsaka nánar þætti sem skapa vellíðan og jákvæðan vöxt (blómstrun) hjá einstaklingum, samfélaginu og stofnunum.  Úr varð það sem við þekkjum í dag sem jákvæða sálfræði sem skilgreina má sem “þekking á hvað gerir lífið þess virði að lifa því”. 

Jákvæð inngrip eru verkfæri sem ætlað er að kalla fram jákvæða breytingu hjá fólki. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á mælanlegan árangur inngripa á vellíðan og lífsánægju. Eitt af því sem er svo frábært við inngripin er að þau eru einföld í framkvæmd og eitthvað sem allir ættu að geta nýtt sér.

​Persónustyrkleikagreining

Greining persónustyrkleika fer fram með viðurkenndu VIA sjálfsmatsprófi sem hannað er af klínískum sálfræðingum. ​Í framhaldinu færð þú vandað hefti með upplýsingum um kjarnastyrkleikana þína fimm, ásamt verkefnum sem þú getur nýtt þér til að styrkja þig enn frekar.

Rannsóknir hafa sýnt að þekking á eigin styrkleikum hefur jákvæð áhrif á hamingju og vellíðan og getur dregið úr þunglyndi. En svo áhrifin vari áfram er mikilvægt að vinna með styrkleikana sína. Það getum við gert í sameiningu sem og með heimaverkefnum.

Við ræðum styrkleikana ásamt öðru í pörum á meðan við göngum um fallega náttúru. Það er að sjálfsögðu þitt að ákveða hversu miklu þú deilir af þínum persónulegu upplýsingum en við getum alltaf rætt styrkleikana almennt.  Markmiðið með samræðunum er að þú öðlist betri skilning á styrkleikunum og hvað þeir þýða fyrir þig, hvort þeir endurspegla þína eigin sjálfsþekkingu og hvernig getur þú nýtt þá sem best.

Scroll to Top