Betri geðheilsa með hreyfingu!

Betri geðheilsa með hreyfingu!

Flestir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að stunda reglubundna hreyfingu til að hlúa að líkamlegri heilsu og koma í veg fyrir sjúkdóma seinna meir.

Það sem er ánægjulegt að sjá er að sífellt fleiri virðast einnig gera sér grein fyrir mikilvægi reglubundnar hreyfingar til að stuðla að góðri geðrænni heilsu.

Það sem gerir hreyfingu að svo frábæru bjargráði við tilfinningalegri líðan er að ávinningurinn birtist strax! það þarf ekki að bíða í einhverja mánuði eftir því að sjá árangur erfiðisins eins og af líkamlegum ávinningi hreyfingar.

Einbeiting eykst þegar endorfín flæðir um líkamann í kjölfar hreyfingar og hugsun verður skýrari. Þá eykst tilfinningalegt jafnvægi, dregur úr áhyggjum, sjálfsgagnrýni, heilaþoku og hægir á hrörnun heilans.

Hreyfing dregur jafnframt úr streitu svo við eigum auðveldara með að vinna úr upplýsingum og takast á við áskoranir. Þol gagnvart áreiti og óvissu eykst og skapið róast.

Svefngæði og dægurtaktur hugar og líkama verður betri með reglubundinni hreyfingu. Það er mikilvægt að við kennum líkamanum muninn á degi og nóttu, finnum til þreytu/syfju á kvöldin og í kjölfarið tækifæri á að upplifa hugarró.

Reglubundin hreyfing styrkir sjálfsmyndina og sjálfsvitund. Í gegnum hreyfingu gefst okkur tækifæri til að kynnast líkama okkar af einlægri forvitni og kærleika, uppgötvum annmarka hans, getu og styrk. Þjálfumst í að taka honum eins og hann er og bera virðingu fyrir honum. Það stuðlar að aukinni sjálfsþekkingu og viðringu í eigin garð.

Þannig að þótt við upplifum stundum að við séum mjög þreytt og orkulaus (að degi til) þá getur verið betra að stunda stundum hreyfingu í stað þess að hvílast, þótt það þýði að við þurfum að eyða meiri orku.

Því þegar við eyðum orku við að stunda hreyfingu þá öðlumst við jafnframt annars skonar orku, tilfinningalegt jafnvægi og betri geðheilsu.

Þegar við veljum okkur hreyfingu þá er mikilvægt að mæta eigin þörfum. Velja hreyfingu og álag sem hentar okkur og veitir okkur ánægju því þá aukast líkurnar á að við endumst í þeirri ástundun.

Munum að hver minnsta hreyfing er betri en engin!

5 mínútna göngutúr í kringum húsið er betra en að aðhafast ekkert.

Svo byrjum strax!

Anna Sigurðardóttir, sálfræðingur

Scroll to Top