Ert þú sátt/ur með líf þitt?
Ef við viljum lifa lífi okkar í sátt við sjálf okkur og aðra þá er mikilvægt að gera reglulegt endurmat á því hvernig við forgangsröðum orku og tíma okkar, bæði í leik og starfi.
Ein leið til að gera það er að ímynda sér að að við séum við eigið dánarbeð, horfum tilbaka á líf okkar sem liðið er. Spyrjum okkur hvort við getum verið sátt við það hvernig við höfum lifað lífinu, ef það héldi áfram eins og það er í dag.
- Getum við fundið til þess að við séum sátt við þá stöðu sem við erum í í dag?
- Erum við sátt við hvernig orka og tími okkar raðast niður á verkefni, fólk og hlutverk sem við sinnum daglega?
- Eða finnum við löngun til þess að breyta áherslum í lífinu?
- Ef svo er, hverju er þörf á að breyta?
- Hvernig getum við breytt forgangsröðuninni?
- Þurfum við mögulega aðstoð til að gera þessar breytingar?
Þegar við erum að gera endurmat á lífi okkar þá þurfum við að átta okkur fyrst á hvað það er sem við viljum breyta. Í kjölfarið er hægt að skoða nánar hvernig það sé hægt miðað við okkar stöðu, fjárhag og stuðningsnet.
Mikilvægt er að leyfa sér fyrst að dreyma, vera opin og bjartsýn fyrir nýjum hugmyndum um hvernig sé hægt að útfæra hlutina.
Síðan þegar við höfum ákveðið hvað það er sem þarf að breytast þá er mikilvægt að setja sér raunsæ skammtíma- og langtíma markmið.
Í kjölfarið er hægt að byrja á að taka lítil skref í einu í átt að þeirri loka útkomu sem við óskum okkur.
Anna Sigurðardóttir, sálfræðingur