Kristín Linda

Sálfræðingur

Kristín Linda sálfræðingur hjá Huglind ehf – veitir öllum eldri en 20 ára sálfræðiþjónustu en hefur þó sérstaka reynslu af því að sinna þeim sem eru 40 ára og eldri. Hún starfar bæði hjá Samkennd á Tunguhálsi í Reykjavík og á sálfræðistofu Huglindar í Fjölheimum á Selfossi. Kristín Linda leggur áherslu á að mæta hverjum og einum þar sem þörfin er mest hverju sinni. Vinna með þá atburði, vanda og áskoranir sem sá sem til hennar leitar telur mest knýjandi á þeim tíma og veita faglega, hagnýta, raunhæfa, heilsubætandi og valdeflandi hjálp og bjargráð.

Sérfræði – og áhugasvið
Kristín Linda hefur sérhæft sig í meðferð og aðstoð fyrir þá sem eru að ganga gegnum hverskonar erfiðleika og vanlíðan. Depurð, óánægju, sjálfsmyndarvanda, tómleika, vonleysi, missi, sorg, áhyggjur, kvíða, áföll, streitu, þrot og kulnun. Samskiptavanda, vansæld og erfiðleika, á vinnustað, heimili, við vini, stórfjölskyldu, börn eða maka. Erfiða lífsviðburði, veikindi, sjálf sín eða sinna, fíkn og neyslu í fjölskyldu, framhjáhald, svik, skilnaði, gjaldþrot, höfnun, einangrun og einsemd.

Hún hefur einnig sérhæft sig í jákvæðri uppbyggingu og stefnumótun í eigin lífi. Sífellt fleiri kjósa að leita sér faglegar aðstoða við eigin stefnumótun, forgangsröðun, ákvarðanir og lífsstíl. Kristín Linda hefur mikla reynslu á þessu sviði, hvort sem er í sálfræðiviðtölum, með fyrirlestrum eða námskeiðum hérlendis eða erlendis og býður ár hvert upp á uppbyggingarferðir til Spánar í samvinnu við ferðaskrifstofuna Skotgöngu.

Í gegnum árin hefur Kristín Linda sinnt margskonar handleiðslu fyrir einstaklinga. Faglegri handleiðslu í starfi og samskiptum á vinnustað. Handleiðslu gegnum erfiða lífsviðburði og verkefni sem fólk tekst á við utan vinnu svo sem í sjálfboðaliðastarfi, hópum, félögum, stórfjölskyldu eða áhugamálum. Sem dæmi má nefna að fjöldi skólastjórnenda, kennara, heilbrigðisstarfsfólks og fagfólks sem starfar í félagsþjónustu hefur nýtt sér handleiðslu Kristínar Lindu. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að Kristín Linda hefur réttindi til að stafa bæði sem grunnskóla og framhaldsskólakennari og hefur starfað í framhaldsskóla við sálfræðikennslu.

Menntun og starfsreynsla
Kristín Linda hlaut starfsleyfi frá Landlækni sem sálfræðingur/psychologist árið 2013 og hefur starfað við fagið síðan þá. Hún stundar ár hvert markvissa endurmenntun og fylgist með því nýjast á fræðasviðinu. Kristín Linda nýtir gagnreyndar meðferðir og aðferðir sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að virka. Sem dæmi má nefna: Hugræn atferlismeðferð, ACT Acceptance and committment therapy/Sátta og stefnumótandi meðferð, Samkenndarmeðferð/Self Compassion therapy, Núvitund og Jákvæða sálfræði. Kristín Linda hefur auk þess að starfa sem sálfræðingur fjölþætta reynslu úr atvinnulífinu m.a. sem bankastarfsmaður, blaðamaður og ritstjóri, kúbóndi og kennari. Hún er nú aðstoðarfararstjóri hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Skotgöngu.

Nánar um Kristínu Lindu og þjónustu hennar hérlendis og erlendis á huglind.is.

Scroll to Top